Thai Yoga Massage

Nuad Bo-Rarn

Thailenskt jóga nudd er frábrugðið öðru nuddi í grunvallaratriðum þvi ekki er um eiginlegt nudd að ræða, frekar þrýsting þar sem nuddarinn notar líkamsþyngd sína, hendur, fætur, olnboga og þumla til að skapa þrýsting og teygja líkama nuddþega. Einnig er um punktaþrýsting að ræða á 10 stærstu orkubrautum líkamans sem nefndar eru Sen Sib .

Nuddað er á dýnu og er nuddþeginn nuddaður í fötum. Þannig að ef einhver biður þig um að fara úr fötunum fyrir Thailenskt nudd er sennilega um eitthvað allt annað nudd að ræða. Hver nuddtími er um 90 mínútur eða meira. Tímapantanir hjá kristinsjofnv@gmail.com

Thailenskt jóga nudd stundum nefnt Ancient Thai massage eða bara Thai massage er talið vera rúmlega 2500 ára gamalt meðferðarform og er eitt af 4 þrepum í gömlu Thailensku læknisfræðinni. Thailenska læknisfræðin byggðist upp á fæðingalækningum, (aðstoð við fæðingar), grasaælkningum (með undantekningum þó því einhverjir dýrapartar voru notaðir í blöndur), beinalækningar (aðallega Búddamunkar sem sáu um að heila brotin bein) og síðast en ekki síst Thailenskt jóga nudd. Allar þessar aðferðir eru enn notaðar nema beinalækningarnar því nútímatæknin með tilkomu röntgenmynda tók við af Búddamunkunum við að heila brotin bein og er bannað í Thailandi að stunda hinar hefðbundnu gömlu beinalækningar.

Uppruni Nuad Bo-Rarn – Thailenska jóga nuddsins.

Almennt er talið að Dr. Sivaga Komarpaj (mismunur er á stafsetningu nafns Dr Sivaga eftir heimildum og stundum er hann kallaður Dr Sivago og einnig hefur nafn hans verið stafstett dr Jiwaka Komaraphat en ég held mig við stafsetningu ITM skólans í Thailandi) sé upphafsmaður Thailensku læknisfræðinnar og þar með Thailenska jóga nuddsins.

Saga Dr Sivaga er rituð í Vinaya Mahawak – fornu Búddaritunum og læt ég hana fyljga hér með úr þýðingu bókarinnar Thai Massage the Thai Way höf: J.Chaithaoulthi & K.Mungsini.

Þegar Búdda átti heima á Indlandi var þar borg sem hét Rajghir og konungur þeirrar borgar hét Pimpisara. Í borginni bjó og starfaði vændiskona sem hét Sarawadee og varð hún fyrir þvi „óhappi“ að verða barnshafandi. Sarawadee fór í felur á meðan á meðgögnunni stóð og þegar barnið fæddist kom hún þvi fyrir í gamalli bambuskörfu og henti því á ruslahauga borgarinnar. Síðan hélt hún áfram sínu gamla starfi. Apai prins, sonur Pimpisara ók í vagni sínum fram hjá ruslahaugunum á leið sinni í höllina og tók eftir því að krákur voru happasælar á sveimi yfir haugunum þar sem lítill hópur fólks hafði safnast saman. Prinsinn spurði fólkið hvað um væri að vera og fékk þær fregnir að fundist hefði ungabarn í bambuskörfu á haugunum og væri það enn á lífi. Prinsinn fyrirskipaði að barnið skyldi flutt í höllina og komið fyrir hjá fóstru þar. Barnið var drengur og nefndur Sivaga (á lífi) Komarpaj (barn tekið í fóstur af prinsi) eða lilfandi barn tekið í fóstur af prinsi eins og merking nafnsins segir til um.  Þegar Sivaga var kominn á þann aldur að ákveða hvaða stefnu hann vildi í lífi sínu, ákvað hann að velja þannig fag að hann gæti þjónað fósturfjölskyldu sinni sem best og valdi læknisfræði. Hann fór til borgarinnar Taxila á Indlandi og var þar að læra hjá lærimeistara sínum Dr.Tispamoke í sjö ár. Þegar námstímanum var að ljúka spurði hann lærimeistara sinn hvort það væri eitthvað sem hann ætti eftir ólært. Þá skipaði lærimeistarinn honum að fara með skóflu með sér og ganga hringinn í kringum borgina og leita að þeim hlutum sem ekki gætu gagnast í læknismeðferðum eða til heilunar. Eftir dágóðan tíma kom Sivaga aftur til lærimeistarans tómhenntur og sagðist ekki hafa fundið neitt sem ekki hafi verið hægt að nota á einn eða annan hátt til heilunar og læknismeðferðar. Lærimeistarinn var ánægður með þessi svör og útskrifaði Dr Sivaga.  Á leið sinni aftur heim til föðurhúsana þjónaði Dr Sivaga sem læknir með það miklum ágætum að nafn hans varð þekkt og virt áður en hann komst heim í höllina í Rajghir. Eitt sinn eftir heimkomuna varð konungurinn veikur með mikla gyllinæð og var Dr. Sivaga sóttur til að meðhöndla konunginn. Konungurinn náði fullum bata og var Dr. Sivaga gerður að hirðlækni og átti að einbeita sér að hirð konungs og gestum þar á meðal munkum og Búdda sjálfum sem dvöldu stundum í boði konungs yfir regntímann í höllinni. Búddaritin segja frá þeim meðferðum sem Búdda þáði af Dr. Sivaga og þykja þau skrif sanna að Dr. Sivaga var læknir og persónulegur vinur Búdda.  Þekking Dr. Sivaga var síðan kennd í gegnum aldirnar munnlega í Búddaklaustrum og voru þau starfsvettvangur þar sem Thailensk læknisfræði var stunduð og þar með talið Thailenskt  jóga nudd.

Fyrir hvern nuddtíma í Thailensku jóga nuddi er farið með stutta bæn til Dr Sivaga og minning hans heiðruð.

Thailenskt nudd í nútímanum

Árið 1782 ákvað konungur Thailands að hefja uppbyggingarstarf eftir síðustu innrás Búrma inn í Thailand 1767, eyðileggingin var mjög mikil og mikið hafði verið eyðilagt af Búddaklaustrum. Konungurinn lét safna saman heillegustu ritum um Thailenska læknisfræði og lét færa það í stein og eru þessi rit enn varðveitt meðal annars í Wat Po í Bangkok og getur almenningur farið þangað og skoðað þessar steinristur.

Orðspor Thai nuddsins beið mikla hnekki eftir Víetnamstríðið þegar vesturlandabúar keyptu sér í stórum stíl Thai nudd af  erotískum nuddurum á ferðamannastöðum Thailands. Til að vinna virðingu þessarar fornu nuddmeðferðar aftur til vegsemdar var átaki hleypt af stokkunum þann 15. nóvember 1985, stutt af ríkisstjórn Thailands sem hét “ The Thai Massage Revival Project“. Þá söfnuðust saman í fyrsta sinn tólf reynslumestu og virðingarverðustu Thai nuddarar hvaðan af landinu sem var.  Mótuð var samræmd stefna sem allir Thailenskir nuddskólar verða að starfa eftir í dag og hafa Thailendingar tekið þá ákvörðun að þekking sé eina vopnið gegn fordómum um Thailenskt nudd og lagt sig fram um að bjóða þessa þekkingu fyrir almenning og  vesturlandabúa.

Tímapantanir  í Thailenskt  jóga nudd hjá Kristínu Sjöfn: kristinsjofnv@gmail.com